Handbolti

Fernandez: Ísland og Króatía með bestu liðin í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernandez í leiknum í kvöld.
Fernandez í leiknum í kvöld. Mynd/Valli
Jerome Fernandez, landsliðsfyrirliði Frakka, sagði í viðtali við Vísi í kvöld að það þýddi ekkert fyrir frönsku landsliðsmennina að lifa á forni frægð.

Fernandez átti magnaðan leik og skoraði alls níu mörk úr tíu skotum. Engu að síður dugði það ekki til þar sem að strákarnir okkar náðu með frábærri frammistöðu að vinna glæsilegan sigur í jöfnum leik, 30-29.

„Þetta eru okkur mikil vonbrigði vegna þess að við þurftum á þessum sigri að halda. En Ísland spilaði mjög vel og áttu skilið að vinna leikinn," sagði Fernandez.

„Við þurfum að leggja meira á okkur og undirbúa okkur vel fyrir næsta leik sem er gegn Svíþjóð. Við þurfum að vinna þann leik."

Fernandez segir franska liðið hafa tapað of mörgum boltum í leiknum. „Við vissum að Íslendingar eru mjög góðir í hraðaupphlaupum og þeir voru duglegir að refsa okkur fyrir hvern tapaðan bolta í kvöld. Það var bara of mikið fyrir okkur."

Hann segir að frammistaða íslenska liðsins hafi ekki komið sér á óvart. „Ég hafði séð Ísland spila áður og vissi að þeir væru með mjög gott lið. Ég tel að Ísland og Króatía séu bestu liðin á þessu móti eins og málin standa nú."

„En það er alveg ljóst að sannleikurinn kemur í ljós í fjórðungsúrslitunum - ekki núna."

Frakkar eru eitt sigursælasta landslið allra tíma en Fernandez segir að það dugi þeim skammt í dag.

„Það er í fortíðinni. Við þurfum að hugsa um nútímann og hætta að lifa í fortíðinni. Nú þurfum við að halda áfram og það mun svo koma í ljós hvort að við séum betri en önnur lið - eða ef önnur lið eru betri en við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×