Innlent

Þreyttu inntökupróf í læknaskóla í Slóvakíu

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Haraldur Sveinn.
Haraldur Sveinn.
Ellefu Íslendingar þreyttu í dag inntökupróf í læknaskóla í Slóvakíu. Einn þeirra sem komst inn ákvað á mánudaginn að taka prófið, en námið hefst eftir viku.

Það er Comenius háskólinn í Bratislava í Slóvakíu sem bauð íslenskum stúdentum í inntökupróf í læknisfræðinám við skólann á Grand Hóteli í dag. Læknisfræðideildin er staðsett í bænum Martin í norðurhluta Slóvakíu og hefur Íslendingum ekki áður gefist kostur á að stunda nám þar.

„Það fer eftir því hve margir þiggja plássið og koma til Martin 7. september til að hefja nám á fyrsta ári í læknisfræði," segir Alberg Stránsky, deildarstjóri læknadeildar Comenius Háskóla.

Hann segir að flestir nemendur í deildinni séu frá Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi og því hlakka hann til að fá meiri fjölbreytni í nemendahópinn.

„Norsku nemendurnir okkar báðu okkur að fá nemendur frá öðrum löndum, ekki bara frá Noregi og Svíþjóð, svo ég er mjög ánægður. Og ég vona að í framtíðinni muni nemendum fjölga og að við fáum fleiri nemendur frá Íslandi," segir Alberg.

Af þeim ellefu nemendum sem þreyttu prófið á Grand Hótel í dag var átta boðin skólavist strax að loknu prófi en sumir höfðu ákveðið að fara í prófið með mjög stuttum fyrirvara.

„Ég sá þessa frétt á mánudaginn, þá var það hugmynd svo var það ákvörðun í gær og hérna er ég, búinn að taka það og kominn inn," segir Haraldur Sveinn Rafnar Karlsson, verðandi læknanemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×