Umtalaðasti knattspyrnumaður Evrópu þessa dagana er kólumbíski framherjinn Falcao sem spilar með Atletico Madrid. Hann hefur farið algjörlega á kostum.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Rússlands, er á meðal aðdáenda Falcao en hann líkir honum við sjálfan Lionel Messi.
"Á öllum mínum ferli er aðeins einn leikmaður sem hefur heillað mig jafn mikið og Messi í fyrsta skipti sem ég sá hann. Það er Falcao," sagði Capello.
"Hann er ótrúlegur framherji og án vafa sá besti í augnablikinu."
Atletico á örugglega eftir að reynast erfitt að halda honum en leikmaðurinn er samningsbundinn félaginu til 2016. Það er þó ljóst að Atletico mun fá mikinn pening fyrir hann.

