Enski boltinn

Terry í fjögurra leikja bann | Sektaður um 45 milljónir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
John Terry, fyrirliði Chelsea, hefur verið dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir að beita Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði.

Enska knattspyrnusambandið skipaði óháða nefnd til að fella dóm í málinu en auk bannsins þarf Terry að greiða 220 þúsund pund, tæpar 45 milljónir króna, í sekt.

Umrætt atvik átti sér stað í leik Chelsea og QPR þann 23. október í fyrra. Terry var gefið að sök að hafa notað niðrandi talsmáta gagnvart Ferdinand. Terry var kærður í almennum dómstólum en var sýknaður af kærunum í júlí síðastliðnum.

Eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í því máli tók enska knattspyrnusambandið upp málið innan sinna raða. Við þá ákvörðun var Terry afar ósáttur og gaf hann það út á fyrr í vikunni að hann myndi af þessum sökum ekki gefa kost á sér framar í enska landsliðið.

Yfirheyrslur hafa staðið yfir alla vikuna og var dómur kveðinn upp nú síðdegis. Terry hefur nú fjórtán daga til að áfrýja dómnum og er hann nú sagður íhuga þann möguleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×