Enski boltinn

Terry áfrýjar ekki | Fer í fjögurra leikja bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
John Terry hefur ákveðið að áfrýja ekki úrskurði aganefndar enska knattspyrnusambandsins og mun því taka út fjögurra leikja bann fyrir að beita Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði.

Terry var í sumar sýknaður í breskum dómstólum vegna málsins en atvikið átti sér stað í leik Chelsea og QPR fyrir um ári síðan.

Enska knattspyrnusambandið tók málið upp nú í sumar og komst að þeirri niðurstöðu að Terry hafi haft niðrandi ummæli um Ferdinand. Hann var dæmdur í fjögurra leikja bann og sektaður um 220 þúsund pund - um 43 milljónir króna.

Gríðarlega mikið hefur verið fjallað um málið í Englandi og leiddi það meðal annars til þess að Terry hætti að gefa kost á sér í enska landsliðið. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu en gera má ráð fyrir því að með þessu hafi hann viljað binda enda á málið.

Luis Suarez, leikmaður Liverpool, gerði slíkt hið sama í fyrra þegar hann ákvað að áfrýja ekki átta leikja banni sem hann fékk fyrir að beita Patrice Evra, leikmann Manchester United, kynþáttaníði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×