Fótbolti

Mancini og Balotelli sleppa báðir við refsingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli var æstur í leikslok.
Mario Balotelli var æstur í leikslok. Mynd/AP
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, mun ekki refsa Manchester City mönnunum Roberto Mancini og Mario Balotelli fyrir mótmæli þeirra í lok jafnteflisleiksins á móti Ajax í gær. Hvorki eftirlitsdómari leiksins eða danski dómarinn skrifuðu um háttarlag City-manna í skýrslu leiksins.

Mario Balotelli var mjög ósáttur með að fá ekki víti þegar hann var greinilega togaður niður í teignum rétt fyrir lokaflautið og Roberto Mancini var mjög reiður yfir því að því virtist löglegt sigurmark Manchester City var dæmt af. Sergio Agüero skoraði þá eftir sendingu frá Aleksandar Kolarov en Kolarov var ranglega dæmdur rangstæður af danska aðstoðardómaranum.

Talsmaður UEFA staðfesti það við blaðamann Guardian að mótmælin hefðu ekki komið fram á skýrslu um leikinn og að málið fari því ekki fyrir aganefnd sambandsins.

Það kemur nokkuð á óvart að danski dómarinn Peter Rasmussen skuli ekki hafa skrifað um þessa mótmæli í skýrslu sína því þau voru augljós í sjónvarpsútsendingu frá leiknum en þurfti Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, meðal annars að ýta Mario Balotelli í burtu þegar Ítalinn ætlaði að vaða í dómarann.

Kannski hafði sá danski eitthvað á samviskunni en menn voru fljótir að rifja það upp að það er stutt síðan að Arsène Wenger fékk eins leiks bann og 10 þúsund evra sekt fyrir að veitast að dómaranum Massimo Busacca eftir leik Arsenal og Barcelona í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×