Fótbolti

Cech: Mikil vonbrigði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Petr Cech, markvörður Chelsea, var vitanlega vonsvikinn eftir 3-0 tap sinna manna fyrir Juventus í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Evrópumeistarar Chelsea þurfa nú að vinna Nordsjælland í lokaumferðinni og treysta á að Juventus tapi á sama tíma fyrir Shakhtar Donetsk. Annars er Chelsea úr leik.

„Síðasta tímabil í Meistaradeildinni var eins og draumur. Þetta er kannski ekki eins og martröð en þetta eru gríðarlega mikil vonbrigði," sagði Cech eftir leikinn í kvöld.

„Við sýndum mun meiri baráttuanda í þessum leik en þeim síðustu á undan. Við sköpuðum færi í fyrri hálfleik en náðum ekki að nýta þau. Það var munurinn á liðunum í kvöld."

„Fyrsta markið kom eftir skot sem breytti um stefnu á miðri leið en þeir áttu heilt yfir skilið að vinna í kvöld. Við lentum í vandræðum með þá."

„Örlög okkar eru ekki lengur í okkar eigin höndum. Við þurfum að vinna okkar síðasta leik og vona að það dugi til. En raunin er sú að Juventus þarf stig í lokaumferðinni og Shakhtar er þegar komið áfram. Þetta er mjög leiðinlegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×