Fótbolti

Barcelona og Valencia í 16-liða úrslitin

Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spænsku liðin Barcelona og Valencia tryggðu sér í dag öruggt sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Börsungar unnu 3-0 sigur á Spartak Moskvu í Rússlandi en Valencia á enn eftir að spila í kvöld.

Barcelona er með tólf stig í G-riðli og tryggir sér efsta sæti riðilsins ef Celtic vinnur ekki Benfica á útivelli í kvöld. Barcelona lendir þó aldrei neðar en í öðru sæti.

Dani Alves skoraði fyrsta mark Barcelona í dag en Lionel Messi hin tvö. Sá síðarnefndi hefur því skorað alls 80 mörk í öllum keppnum á árinu til þessa.

Í F-riðli hafði Lille betur gegn BATE á útivelli, 2-0. Sigurinn þýðir reyndar að Valencia er öruggt áfram í 16-liða úrslitin þar sem liðið getur ekki endað neðar en í öðru sæti riðilsins en liðið mætir Bayern München síðar í kvöld.

Bayern og Valencia eru bæði með níu stig. BATE er með sex stig en Valencia kæmist áfram á betri árangri í innbyrðisviðureignum ef liðin enda jöfn að stigum að riðlakeppninni lokinni.

Þessir leikir hófust klukkan 17.00 vegna tímamismunar í Rússlandi en aðrir leikir kvöldsins í Meistaradeildinni hefjast klukkan 19.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×