Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, reiknar ekki með að nýir leikmenn verði fengnir til félagsins í janúarglugganum.
Opnað verður fyrir félagaskipti í flestum Evrópulöndum í janúar. Real Madrid hefur farið illa af stað á leiktíðinni en portúgalski stjórinn reiknar ekki með breytingum á leikmannahópnum.
„Ég reikna ekki með því að við munum aðhafast eitthvað í janúar," sagði Mourinho á blaðamannfundi í gær fyrir leikinn gegn Malaga í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.
„Ég hugsa að Kaka fari ekki neitt," bætti Portúgalinn litríki við. Brasilíski miðjumaðurinn hefur fengið fá tækifæri á leiktíðinni. Kaka hefur aðeins byrjað einn deildarleik og hefur verið orðaður við brotthvarf frá félaginu.
„Ef hann verður áfram eru það góð tíðindi fyrir liðið," sagði Mourinho.

