Innlent

Bjarni um skuldamál heimilanna: Vill ábyrg loforð

„Ég held að það skipti miklu máli að sýna ábyrgð í þessum málaflokki," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í Kryddsíldinni þegar hann var spurður hvað flokkur hans vildi gera í skuldamálum heimilanna.

Bjarni kom á eftir Þór Saari, sem hélt mikla ræðu um fjórflokkana og þeirra eilífa „pex". Þór sagði ennfremur að það ætti að leiðrétta skuldir heimilanna þar sem hér hefði orðið forsendubrestur, meðal annars vegna skorttöku fyrirtækja gegn íslensku krónunni.

Bjarni sagði þetta tal óábyrgt, „við viljum ekki gefa loforð um það sem hugsanlega er ekki hægt að standa við," sagði Bjarni og bætti við að þannig væru orð Þórs óábyrg þar sem hann vildi einhverntímann leiðrétta allar skuldir heimilanna.

„Flokkurinn hans hvarf út af óábyrgu tali," bætti Bjarni við en Þór mótmælti þessu.

Bjarni sagði aftur á móti að það væri nauðsynlegt að auðvelda þeim sem eiga í verulegum vandræðum með skuldir sínar að fara í gegnum einfaldara kerfi en nú er til staðar. „Við viljum fyrst gera fólki kleyft að leita úrræða sem virka, svo þeir þurfi ekki að ganga í gegnum þröng svipugöng," sagði Bjarni og bætti við að hann vildi einnig auka ráðstöfunarfé almennings, svo þau gætu saxað á skuldir.

Hægt er að horfa á Kryddsíldina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×