Fótbolti

Valdano: Guardiola er Steve Jobs fótboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jorge Valdano, fyrrum yfirmaður knattspyrnumála hjá Real Madrid, hefur mikið dálæti á Pep Guardiola, fyrrum þjálfara Barcelona, og telur hann vera brautryðjanda í fótboltanum.

Barcelona vann fjórtán titla undir stjórn Pep Guardiola á árunum 2008 til 2012 en spænski þjálfarinn ákvað að taka sér eitt ár í frí og hætti þjálfun liðsins síðasta vor. Barcelona vann 179 af 247 leikjum undir stjórn Guardiola og tapaði aðeins 21 sinni.

„Guardiola vann frábært starf hjá Barcelona og hann er Steve Jobs fótboltans. Hann er frumlegur, nýungagjarn, hugrakkur, vill fá fegurðina fram og er tilbúinn að reyna öðruvísi hluti. Hann er orðinn mikilvægt nafn í fótboltaheiminum," sagði Jorge Valdano við Eurosport.

„Barcelona hefur búið til sinn eigin „kúltur" í kringum sinn fótbolta og sá fótbolti sem menn læra í akademíunni í La Masia er hinn sami og er síðan spilaður á Nývángi," sagði Valdano.

„Uppeldisstarfið var einu sinni mikilvægt fyrir Real Madrid en nú eru breyttir tímar. Það er mikið til í þeim orðum að til þess að unglingastarfið skili af sér leikmönnum er betra að vera fátækur en ríkur," sagði Valdano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×