Fótbolti

Xavi: Spánverjar kunna ekki að meta Barcelona-liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Xavi Hernández, miðjumaður Barcelona og spænska landsliðsins segir Barcelona ekki fá þá viðurkenningu á Spáni sem liðið á skilið. Ástæðuna telur hann vera ríginn á milli Real Madrid og Barcelona.

Barcelona hefur unnið þrettán af síðustu sextán titlum í boði og Real Madrid hefur aðeins náð að vinna einn titil á sama tíma. Xavi er á því að langflestir Spánverjar haldi með Real Madrid.

„Sigrar Barcelona er miklu meira metnir utan Spánar og ástæðan er stríðið á milli Barca og Madrid," sagði Xavi á blaðamannfundi. Xavi tjáði sig líka um framtíð þjálfarans Pep Guardiola sem hefur ekki enn framlengt samning sinn við félagið.

„Við erum ekki undirbúnir fyrir "nei" frá Guardiola og við vonum allir að hann haldi áfram. Guardiola er leiðtoginn í búningsklefanum, hann kom inn með aga inn í liðið og breytti okkur í sigurvegara. Ég held að hann haldi áfram," sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×