Fótbolti

Meistaradeildin: Schweinsteiger fær mikið hrós frá þjálfaranum

Þýski landsliðsmaðurinn Bastian Schweinsteiger fær mikið hrós frá þjálfara sínum, Jupp Heynckes,
Þýski landsliðsmaðurinn Bastian Schweinsteiger fær mikið hrós frá þjálfara sínum, Jupp Heynckes, Getty Images / Nordic Photos
Þýski landsliðsmaðurinn Bastian Schweinsteiger fær mikið hrós frá þjálfara sínum, Jupp Heynckes, sem líkir Bayern München leikmanninum við Xavi og Andres Iniesta hjá Barcelona. Schweinsteiger hefur ekki leikið með þýska liðinu að undanförnu vegna meiðsla en hann gæti verið í byrjunarliðinu þegar Bayern München tekur á móti Basel í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Gengi Bayern München hefur ekki verið upp á það besta að undanförnu og eru margir á þeirri skoðun að fjarvera Schweinsteiger hafi veikt liðið mikið. Frá því í nóvember hefur Schweinsteiger lítið verið með þýska liðinu vegna meiðsla. Staðan í þýsku deildinni er þannig að Borussia Dortmund er með fimm stiga forskot á Bayern München, og 1-0 tap Bayern München gegn Basel frá Sviss í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar kom flestum gríðarlega á óvart.

Bayern München verður á heimavelli þegar liðin eigast við í síðari leiknum í kvöld og eru allar líkur á því að Schweinsteiger verði með á ný. Hann kom inná sem varamaður í 7-1 stórsigri gegn Hoffenheim s.l. laugardag.

„Ég er mjög ánægður að Bastian er kominn á ny í liðið. Ég hef sagt það áður að hann er í sama gæðaflokki og Xavi, Andres Iniesta og Busquets," sagði Heynckes á fundi með fréttamönnum í gær og vísaði þar með í miðjutríóið hjá Evrópumeistaraliði Barcelona frá Spáni.

Heynckes vildi ekki gefa það út hvort Schweinsteiger verði í byrjunarliðinu gegn Basel í kvöld.

„Það er ekki aðalatriði hvort ég sé með eða ekki. Það skiptir meira máli að liðið vinni leiki. Liðið hefur náð góðum úrslitum án mín. Ef ég fæ að vera með þá verð ég ánægður, ef ég verð ekki með mun ég taka að mér annað hlutverk utan vallar og hjálpa liðinu frá hliðarlínunni," sagði Schweinsteiger.

Ekkert annað en sigur kemur til greina hjá Bayer München. Sjálfur úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram á heimavelli liðsins og það er efst á forgangslistanum hjá félaginu að komast í þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×