Enski boltinn

Terry fékk metsekt en verður áfram fyrirliði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bruce Buck, stjórnarformaður Chelsea, hefur staðfest að John Terry hafi verið sektaður um metupphæð hjá félaginu en að hann verði áfram fyrirliði liðsins.

Terry var í dögunum dæmdur í fjögurra leikja bann og sektaður um tæpar 50 milljónir króna af enska knattspyrnusambandinu fyrir að beita Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði.

Chelsea vill þó ekki gefa upp sektarupphæðina né heldur hvort Terry hafi verið refsað á nokkurn annan máta.

„John verður áfram fyrirliði félagsins," sagði Buck við enska fjölmiðla. „Við höfum gripið til aðgerða sem við teljum hæfa tilefninu. Þetta er langstærsta sekt sem leikmaður hefur fengið."

„Við megum ekki gleyma því að hann var sýknaður fyrir dómstólum. Við virðum niðurstöðu enska knattspyrnusambandsins og tókum alla þætti með í reikninginn. Við ráðfærðum okkur líka við eigandann, hr. Abramovich."

„Þetta var ekki ákvörðun sem var tekin í flýti. Við ræddum þetta vel og lengi og teljum aðgerðir okkar viðeigandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×