Innlent

Nýr biskup mun taka við í lok júní

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands hættir í sumar.
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands hættir í sumar.
Stefnt er að því að vígja nýjan biskup á prestastefnu sem fram fer um Jónsmessu í júní. Karl Sigurbjörnsson biskup hefur beðist lausnar frá embætti þann 30. júní. Kjörnefnd tekur nú til starfa vegna fyrirhugaðra biskupskosninga. Stefnt verður að því að leggja fram kjörskrá sem miðast við 1. febrúar næstkomandi, samkvæmt ákvörðun Kirkjuráðs í dag.

Kirkjuráð ályktaði eftirfarandi um framkvæmd biskupskjörs:

1. Þau sem gefa kost á sér til biskupsembættis og þau sem vinna að kjöri þeirra gæti þess að halda í heiðri siðareglur embættismanna og starfsfólks þjóðkirkjunnar og gæti þess að orð þeirra og athafnir séu þjóðkirkjunni til sóma og málstað hennar til framdráttar.

2. Til að auðvelda kynningu á frambjóðendum verði haldnir kynningarfundir í öllum landshlutum. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs skipuleggi þessa fundi í samráði við héraðsnefndir, sem allir frambjóðendur og kosningabærir prestar og leikmenn prófastsdæmisins eru boðaðir til. Kostnaður við fundina greiðist úr kirkjumálasjóði. Ekki er greiddur ferðakostnaður fundarmanna og frambjóðenda.

3. Kirkjuráð gangist fyrir og kosti útgáfu á sameiginlegu kynningarefni um frambjóðendur til biskupskjörs. Jafnframt verði kynningarefni um frambjóðendur gert aðgengilegt á sérstöku vefsvæði á vef kirkjunnar. Frambjóðendum og stuðningsmönnum þeirra sé gefinn kostur á að kynna málstað sinn í framangreindum miðlum. Fyllsta jafnræðis sé þar gætt um aðgengi.

Þá beinir kirkjuráð því til kjörstjórnar við biskupskjör að kjör vígslubiskups í Hólaumdæmi fari fram svo fljótt sem auðið er að loknu kjöri biskups Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×