Fótbolti

Ferguson: Markmiðið að jafna árangur Liverpool í Evrópukeppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að það sé markmið hans að vinna fleiri Evrópumeistaratitla með félaginu.

United komst í gær áfram í 16-liða úrslit keppninnar eftir 3-1 sigur á Braga í Portúgal. Liðið er með fullt hús stiga í H-riðli eftir fjóra leiki.

Félagið hefur unnið þrjá Evrópumeistaratitla frá upphafi, fyrst árið 1968 í Evrópukeppni meistaraliða og svo tvívegis undir stjórn Ferguson í Meistaradeild Evrópu.

„Við ættum að vera komnir með fleiri titla," sagði Ferguson. „Ég vil vinna keppnina aftur og komast nær liðum eins og Liverpool - okkar helsta erkifjendi - Bayern München og Ajax," bætti hann við en Liverpool hefur unnið keppnina fimm sinnum og hin liðin fjórum sinnum - eins og Barcelona.

„AC Milan (7 titlar) og Real Madrid (9 titlar) hafa stungið aðra af en það hvetur mig enn frekar áfram," sagði Ferguson.

United komst alla leið í úrslit árið 2009 og 2011 en tapaði í bæði skiptin fyrir Barcelona.

„Það er virkilega pirrandi að hugsa um þau skipti þar sem við hefðum getað unnið þetta en maður má ekki vera gráðugur. Ég hef unnið tvo Evrópumeistaratitla og Evrópukeppni bikarhafa einu sinni. Ég er stoltur af því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×