Erlent

25 milljónir manna án atvinnu

leitað að vinnu Atvinnuleysi er sem fyrr mest á Spáni. Þar er fjórðungur án vinnu.nordicphotos/afp
leitað að vinnu Atvinnuleysi er sem fyrr mest á Spáni. Þar er fjórðungur án vinnu.nordicphotos/afp
Atvinnuleysi eykst lítillega í ríkjum Evrópusambandsins, samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu Evrópusambandsins. Rúmlega 25 milljónir manna voru án atvinnu í júlí.

Alls voru 10,4 prósent íbúa í ríkjum Evrópusambandsins atvinnulaus í júlí, sem er sama prósentutala og í júní. Atvinnulausum fjölgaði um 43 þúsund milli mánaðanna. Innan evrusvæðisins mælist atvinnuleysið nú 11,3 prósent, líkt og í júní, en atvinnulausum fjölgaði um 88 þúsund í evruríkjunum sautján milli mánaða.

Atvinnulausum innan Evrópusambandsins hefur fjölgað um rúmar tvær milljónir manna milli ára. Atvinnuleysið er mest á Spáni þar sem það er rúmlega 25 prósent, og í Grikklandi þar sem það er rúm 23 prósent. Fæstir eru atvinnulausir í Austurríki, Hollandi, Þýskalandi og Lúxemborg.

Miðað við stöðuna fyrir ári hefur atvinnuleysi aukist í 16 ríkjum, minnkað í 10 og haldist stöðugt í Slóveníu. Atvinnuleysi minnkaði mest í Eistlandi, Lettlandi og Litháen en jókst mest í Grikklandi, á Spáni og á Kýpur. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×