Fótbolti

AC Milan og Juventus skildu jöfn í toppslagnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn Milan fagna marki Antonio Nocerino.
Leikmenn Milan fagna marki Antonio Nocerino. Nordic Photos / Getty
AC Milan heldur eins stigs forskoti á Juventus á toppi ítölsku deildarinnar eftir 1-1 jafntefli liðanna á Guiseppe Meazza vellinum í Mílanó í kvöld.

Heimamenn voru sterkari aðilinn lengst af og komust yfir eftir stundarfjórðung þegar Antonio Nocerino skoraði eftir klaufagang gestanna. Skot Nocerino fyrir utan teig fór af varnarmanni og framhjá Buffon í marki Juventus.

Tíu mínútum síðar töldu leikmenn Milan að þeir væru komnir tveimur mörkum yfir. Sulley Muntari átti þá skalla að marki en Buffon skóflaði boltanum út úr markinu. Boltinn greinilega fyrir innan línuna en dómaratríóið sá það ekki.

Í síðari hálfleik tókst gestunum að jafna metin þegar Alessandro Matri skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Pepe. Markið á 83. mínútu og tryggði gestunum annað stigið.

Arturo Vidal leikmaður Juventus fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins fyrir brot á Mark Van Bommel.

AC Milan hefur eins stigs forskot á Juventus á toppinum en Tórínóliðið á þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×