Erlent

Kafteinn klúður: Myndband sýnir aðgerðarleysi skipstjórans

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Frá björgunaraðgerðum.
Frá björgunaraðgerðum. mynd/AP
Myndband sem sýnir viðbrögð skipstjóra skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, sem strandaði við Ítalíu um miðjan janúar, hefur nú verið birt. Á myndbandinu sést að skipstjórinn lætur sér fátt um finnast og fyrirskipar ekki rýmingu skipsins fyrr en löngu eftir að það strandaði.

Ítalska sjónvarpið birti myndbandið um helgina en sautján hafa fundist látnir í flaki skipsins og fimmtán er enn saknað.

Á myndbandinu sést skipstjórinn Francesco Schettino svara fálega þegar honum er sagt að farþegar séu farnir að yfirgefa skipið en hann fyrirskipaði ekki rýmingu fyrr en klukkustund eftir strandið, þrátt fyrir að skipið væri farið að halla umtalsvert.

Verið er að rannsaka þátt Schettino í strandinu og viðbrögð hans eftir það, til dæmis af hverju hann fór frá skipinu þegar farþegar voru enn um borð og af hverju hann fyrirskipaði ekki rýmingu fyrr en halli skipsins gerði það að verkum að ekki tókst að koma sumum björgunarbátum niður úr skipinu.

Rannsóknaraðilar á Ítalíu vissu ekki af myndbandinu fyrr en það var birt í ítalska sjónvarpinu en það getur reynst dýrmætt í málshöfðun á hendur skipstjóranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×