Lífið

Aðstoðar Grant við íslenskunámið

Guðjón Þorsteinn Pálmarsson hefur hlýtt John Grant yfir í íslenskunámi hans. Hér eru þeir við Seljalandsfoss í fyrra.
Guðjón Þorsteinn Pálmarsson hefur hlýtt John Grant yfir í íslenskunámi hans. Hér eru þeir við Seljalandsfoss í fyrra.
„Hann hefur tekið framförum,“ segir leikarinn Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, eða Denni, um síbatnandi íslenskukunnáttu Johns Grant.

Bandaríski tónlistarmaðurinn er staddur hér á landi eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu og á vel heppnuðum tónleikum hans í Edrúhöllinni á þriðjudagskvöld talaði hann töluvert á íslensku á milli laga. Hann hefur því bætt sig frá tónleikum sínum á Airwaves-hátíðinni í haust þar sem eitt og eitt íslenskt orð kom upp úr honum.

„Hann er mjög duglegur að stúdera,“ segir Denni, sem var hálfgerður leiðsögumaður Grants síðast þegar hann var á landinu og tókst þá með þeim vinátta sem varir enn. „Hann kann að læra tungumál. Hann talar rússnesku og þýsku eins og innfæddur og honum sækist námið mjög vel,“ segir hann. „Ég hlýði honum yfir hluti sem hann vill fara yfir en svo rekur hann garnirnar úr fleira fólki eins og hann getur.“

Grant er því ekki með sérlegan íslenskukennara heldur lærir hann íslenskuna jafnóðum með hjálp nokkurra bóka sem hann hefur keypt sér.

Íslenska er þekkt fyrir að vera erfitt tungumál að læra og tungumálamaðurinn Grant, sem einnig kann sænsku, frönsku, hollensku og spænsku, hefur ekki farið varhluta af því. „Hann er pínu hræddur um að þetta verði ekkert léttara heldur en rússneskan,“ segir Denni. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×