Innlent

Áhrif veiðigjalds verði rannsökuð

sjávarútvegur Umtalsverðar breytingar til batnaðar hafa verið gerðar á frumvarpi um fiskveiðistjórnun frá því frumvarpi sem Jón Bjarnason, þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála, lagði fram vorið 2011, að mati Daða Más Kristóferssonar hagfræðings. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið bað Daða og Þórodd Bjarnason félagsfræðing að vinna greinargerð um frumvarpið.

Daði segir í sínum hluta, sem beinist að hagfræðinni, að takmarkanir á viðskiptum með aflahlutdeild hafi verið minnkaðar, frá frumvarpinu í fyrra, og einnig ákvæði sem hamli áframhaldandi hagræðingu. Hann telur hins vegar mikla þörf á því að rannsaka betur afleiðingar hækkunar veiðileyfagjalds á einstakar útgerðir.

„Ljóst er að þær útgerðir sem eru skuldsettar vegna kaupa á aflaheimildum munu eiga erfitt uppdráttar við þessa breytingu. Ef marka má úttekt sérfræðingahóps á afkomu nokkurra helstu útgerðarfyrirtækja landsins er ljóst að þessi hækkun veiðigjalds er meiri en mörg þeirra ráða við."

Daði segir ýmsa vankanta vera á frumvarpinu og það sé enn mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Þar beri hæst hækkun veiðigjaldsins, en einnig álögur sem leggjast munu á viðskipti með aflahlutdeild og framlag allra útgerða í pottana.

„Mikilvægt er að kanna umfang þessara afleiðinga svo vega megi saman kostnað og væntanlegan ábata aðgerðanna." Ekki fengust upplýsingar um það í ráðuneytinu hvort slík úttekt væri væntanleg.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×