Fótbolti

Sigurður Ragnar: Getum varist vel á móti bestu liðum heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallbera Gísladóttir í leiknum á móti Þýskalandi í gær.Nordicphotos/Getty
Hallbera Gísladóttir í leiknum á móti Þýskalandi í gær.Nordicphotos/Getty
Sigurður Ragnar Eyjólfsson kvennalandsþjálfari var sáttur við frammistöðu íslenska kvennalandsliðsins þrátt fyrir 0-1 tap fyrir Evrópumeisturum Þýskalands í fyrsta leik Algarve-bikarsins. Anja Mittag tryggði þýska liðinu sigurinn á 25. mínútu leiksins.

„Maður er aldrei ánægður með að tapa en frammistaðan hjá liðinu var góð í leiknum og sérstaklega voru þær sterkar og vel skipulagðar varnarlega," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson en Margrét Lára Viðarsdóttir komst næst því að skora þegar hún átti sláarskot úr hornspyrnu í lok fyrri hálfleiksins.

„Ég var mjög ánægður með þetta því þetta er eitt allra besta liðið í heimi. Við vorum auðvitað að verjast stóran hluta leiksins og náðum lítið að skapa okkur sóknarlega. Það sem við tökum út úr þessu er að við getum varist mjög vel á móti allra bestu liðum heims," segir Sigurður Ragnar. Íslenska kvennalandsliðið hefur tapað öllum tólf leikjum sínum við Þýskaland en tveir þeir síðustu hafa aðeins tapast 0-1.

„Ísland hefur aldrei unnið Þýskaland og við skoruðum síðast á móti þeim árið 1987 og markatalan fyrir leikinn var 3-47. Við erum klárlega að nálgast þær. Okkur fannst við vera meira inni í þessum leik en á móti þeim í lokakeppninni. Við gáfum sjaldnar færi á okkur núna og við finnum að við erum að nálgast bestu liðin í getu," segir Sigurður Ragnar.

Sigurður Ragnar hrósaði þeim Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Mist Edvardsdóttur sem voru í fyrsta sinn í byrjunarliðinu, Gunnhildur á miðjunni og Mist í miðri vörninni með fyrirliðanum Katrínu Jónsdóttur.

„Við hentum þeim út í djúpu laugina og ef þú getur spilað vel á móti Þýskalandi þá ættir þú að geta það á móti flestum liðum í heimi. Ég var mjög ánægður með það hvernig þær stóðu sig í leiknum og það er ekki auðvelt að byrja inn á með mjög litla landsleikjareynslu," segir Sigruður Ragnar.

„Við tökum það með okkur út úr leiknum sem var gott og reynum að byggja ofan á það. Það er stutt í næsta leik og það er líka mjög sterkt lið, Svíþjóð. Okkur hefur aðeins einu sinni tekist að vinna þær þannig að það verður bara annað mjög gott próf fyrir liðið," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×