Menning

Samdi nýja skáldsögu sem er framhald Borgríkis

Blóð hraustra manna er framhald glæpamyndarinnar Borgríkis með Ingvari E. Sigurðssyni í einu aðalhlutverkanna.
Blóð hraustra manna er framhald glæpamyndarinnar Borgríkis með Ingvari E. Sigurðssyni í einu aðalhlutverkanna.
„Það er ótrúlega skemmtilegt að skrifa bók með karakterum sem voru algjörlega lifandi í höfðinu á manni," segir rithöfundurinn Óttar Martin Norðfjörð.

Hann sendir í haust frá sér skáldsöguna Blóð hraustra manna. Hið óvenjulega er að hún er framhald glæpamyndarinnar Borgríkis sem kom út á síðasta ári við góðar undirtektir. Til stendur að byggja framhaldmynd hennar, sem er í undirbúningi, að stórum hluta á sögu Óttars. „Það er oft áskorun fyrir rithöfunda að blása lífi í persónurnar í bókunum sínum en þarna var ég að vinna með lifandi persónur," segir Óttar, sem átti því auðvelt með að koma sér af stað í skrifunum.

Leikstjóri Borgríkis, Ólafur Jóhannesson, hafði samband við hann í byrjun ársins og spurði hvort hann vildi taka þátt í samstarfi hans og Hrafnkels Stefánssonar en þeir sömdu handritið að Borgríki. Þeir voru þegar búnir að skrifa beinagrind að handriti Borgríkis 2, eða Blóði hraustra manna, eins og hún kemur til með að heita, og vildu að Óttar hjálpaði þeim við að þróa hugmyndina áfram.

„Þetta er eitthvað nýtt og það er kannski ástæðan fyrir því að ég samþykkti að gera þetta. Ég var með nýja bók í höfðinu en síðan kom þetta á ská," segir Óttar, sem hefur í gegnum árin hjálpað nokkrum leikstjórum með handritin þeirra. „Þetta er orðinn „díalógur". Stóra hugmyndin hjá þeim var fín en það voru litlar holur í henni hér og þar. Það er langur vegur frá tuttugu blaðsíðna beinagrind í fjögur hundruð blaðsíðna skáldsögu. Núna er ég kominn með bók og þá fara þeir að bregðast við henni. Þetta er bolti sem við ætlum að kasta á milli okkar."

Óttar Martin Norðfjörð.
Í Blóði hraustra manna er haldið áfram með sögu aðalpersónanna fjögurra sem Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Sigurður Sigurjónsson og Zlatko Krickic léku í Borgríki, auk þess sem ein ný persóna er kynnt til leiks. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er líklegt að Þorvaldur Davíð Kristjánsson leiki hana í myndinni en ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum.

Stikla úr framhaldsmyndinni var nýlega sýnd erlendum fjárfestum og hún hitti í mark því dreifingarfyrirtækið Celluloit Dreams tryggði sér sýningarrétt hennar í Evrópu þrátt fyrir að enn eigi eftir að taka hana upp. Verið er að fjármagna myndina og reiknað er með frumsýningu eftir um tvö ár.

Hvað varðar endurgerð Borgríkis í Hollywood er vinna hafin á vegum fyrirtækisins New Regency við að skrifa handritið og samkvæmt því á myndin að gerast í Chicago. Enn á samt eftir að koma í ljós hvort endurgerðin verði að veruleika.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.