Menning

Myndirnar á Time Square

Ein myndanna eftir Björn Árnason sem sýndar voru á Time Square í New York á mánudag.
Ein myndanna eftir Björn Árnason sem sýndar voru á Time Square í New York á mánudag. Mynd/Björn Árnason
„Það var verið að auglýsa eftir listamönnum til að taka þátt í sýningunni og ég ákvað að senda inn nokkrar myndir. Almenningur kaus svo um það hverjir kæmust áfram og ég náði þeim kvóta sem til þurfti og fékk því að vera með," útskýrir Björn Árnason ljósmyndari en myndir eftir hann voru sýndar á Time Square í New York á mánudag.

Að sýningunni stóðu samtökin Artists Wanted sem vinna að því að koma á samböndum milli listamanna og alþjóðlegra áhorfenda. Mikill fjöldi listamanna sendu inn verk og voru nokkur þúsund valin til sýningar að lokinni vinsældakosningu. Myndunum var síðan varpað á fjölda skjáa sem búið var að koma fyrir á hinum fræga Time torgi í miðborg New York.

Inntur eftir því hvort hann telji þátttöku hans í sýningunni muni skila honum frægð og frama segist Björn óviss um það. „Ég veit ekki hvort sýningin sjálf muni gera nokkuð fyrir mig, það er frekar að fólkið sem skoðaði myndirnar á Netinu og gaf mér atkvæði sitt muni skila mér einhverju. Mig langar að halda áfram að reyna að byggja upp sambönd og vekja athygli á verkum mínum úti," segir Björn sem lauk námi við Ljósmyndaskólann í vor. Hann hefur stundað ljósmyndun undanfarin sjö ár og hyggst gefa út sína fyrstu ljósmyndabók á næstu misserum.

Björn Árnason.
„Lokaverkefni mitt frá Ljósmyndaskólanum var að mynda Reykjanesið og ég ætla að halda áfram með það núna og stefni svo á að gefa út bók með verkunum," segir hann að lokum.

Áhugasömum er bent á heimasíðu Björns bjornarnason.com. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×