Fótbolti

Chelsea má ekki misstíga sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sex félög geta tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld þegar næstsíðasta umferðin fer fram í riðlum E til H en það þarf þó mikið að gerast til að sum liðanna komist áfram.

Manchester United er eina liðið úr riðlum kvöldsins sem er þegar komið áfram upp úr sínum riðli. Fjögur lið geta treyst á sig sjálf í kvöld og komist áfram með sigri en það eru Barcelona, Celtic, Shakhtar Donetsk og Chelsea.

Evrópumeistarar Chelsea mega ekki misstíga sig í Torinó þar sem liðið heimsækir Juventus. Chelsea hefur verið í ströggli heima fyrir og tapaði fyrir West Brom um helgina.

„Af einhverjum ókunnum ástæðum þá virðist nóvember vera slæmur mánuður fyrir Chelsea," sagði stjórinn Roberto Di Matteo á blaðamannfundi fyrir leikinn. „Ástandið er ekki gott," viðurkenndi Brasilíumaðurinn David Luiz þegar hann var spurður um ósætti innan Chelsea-liðsins eftir tapið á laugardag.

Chelsea er með eins stigs forskot á Juventus og tryggir sig því áfram með sigri. Tap flækir málin ekki síst ef Shakhtar Donetsk vinnur sinn leik á móti Nordsjælland. Chelsea þarf þá að vinna sinn leik á móti Dönunum í lokaumferðinni og treysta jafnframt á að Juve fá ekki stig á móti úkraínska liðinu.

Barcelona tryggir sig áfram með útisigri á Spartak Moskvu og Celtic nægir stig á móti Benfica til að komast áfram upp úr sama riðli. Valencia og Bayern München geta líka bæði tryggt sér sæti í 16 liða úrslitunum þegar þau mætast á Spáni í kvöld en aðeins ef BATE Borisov tapar stigum á móti Lille.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×