Fótbolti

Mancini: Áttum stigið ekki skilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir að Dortmund hafi verið betri aðilinn í leik liðanna í kvöld og að það sé Joe Hart að þakka að leiknum lyktaði með jafntefli.

Dortmund skapaði sér mörg góð færi í leiknum en Hart varði margsinnis glæsilega. Hann kom þó engum vörnum við þegar að Marco Reus skoraði á 61. mínútu en Mario Balotelli jafnaði metin úr vítaspyrnu í lok leiksins.

„Við spiluðum ekki vel. Við áttum ekki skilið að fá þetta stig en það gæti reynst dýrmætt á endanum. Borussia Dortmund spilaði betur en við og er með betra lið eins og er," sagði Mancini við fjölmiðla eftir leikinn í kvöld.

„Við þurfum að hlaupa og berjast um hvern einasta bolta. Við þurfum að berjast. Það er ekki nóg að vera bara með hæfileikarík lið."

„Ég vissi fyrir leikinn að þetta yrði erfitt því Dortmund býr yfir meiri reynslu úr Meistaradeildinni. Ég tel að Joe Hart hafi bjargað okkur því hann stóð sig mjög vel."

„Ég veit hvað vandamálið er og ég mun leysa það fljótt og vel. Ég veit að þetta verður erfitt hjá okkur ef bætum ekki okkar leik en þetta stig gæti reynst mikilvlægt þegar uppi verður staðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×