Innlent

Sigurrós ráðin á Hjálmars vakt

Ármann Kr. Ólafsson.
Ármann Kr. Ólafsson.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir það koma sér á óvart að Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi Næst besta flokksins, skuli spyrjast fyrir um störf Sigurrósar Þorgrímsdóttur við ritun sögu Kópavogs.

Ármann bendir á að Sigurrós hafi verið ráðin af þeim meirihluta sem tók við eftir kosningar 2010 og fór með valdataumana í Kópavogi fyrir skemmstu. Fram að þeim kosningum var Sigurrós bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég vil árétta að þetta var í meirihlutatíð Samfylkingar, Vinstri grænna, Y-lista Kópavogsbúa og Næstbesta flokksins. Þar af leiðandi kemur á óvart að Hjálmar skuli leggja fram þessa spurningu. Þessi vinna fór fram á hans vakt," segir bæjarstjórinn. Ekki náðist í Hjálmar í gær.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að það hefði verið Ármann bæjarstjóri sem svaraði fyrri fyrirspurn Hjálmars um ritun sögu Kópavogs. Hið rétta er hins vegar að það var svar frá Ingólfi Arnarsyni, fjármála- og hagsýslustjóra, sem lagt var fram í bæjarráði. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×