Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna fékk alls 1048 fyrirspurnir frá leigjendum á síðasta ári samkvæmt ársskýrslu Leigjendaaðstoðarinnar.
Vorið 2011 var gerður þjónustusamningur milli Neytendasamtakanna og
velferðarráðuneytisins en samningurinn tók gildi 1. maí sl. og gildir til eins árs.
Samningurinn felur í sér að Neytendasamtökin taka að sér rekstur sérstakrar
leigjendaaðstoðar, þar sem leigjendur íbúðarhúsnæðis geti m.a. fengið upplýsingar um lagalega stöðu sína auk aðstoðar eða milligöngu komi upp ágreiningur milli leigjanda og leigusala.
Af þessum rúmlega þúsund fyrirspurnum snéri meirihlutinn að viðhaldi og ástandi eignarinnar. Næst flestir vildu vita um uppsagnir á leiguhúsnæði.
Í ársskýrslunni má finna nokkur erindi sem bárust leigjendaaðstoðinni.
Meðal annar hafði leigjandi samband þar sem leigusali vildi hækka leiguna án fyrirvara og að leigjandinn flytti úr íbúðinni ef hann samþykkti ekki hækkunina. Á milli aðila var ekki í gildi skriflegur samningur heldur aðeins munnlegur. Í slíkum tilfellum þarf leigusali að sanna hver leigufjárhæðin er og hvað leigjandinn hefur samþykkt að greiða í leigu.
Uppsagnarfrestur á munnlegum leigusamningum er 6 mánuðir, enda teljast þeir
ótímabundnir, og því gat leigusali ekki hækkað leiguna frá því sem samið hafði verið
um.
Annar leigjandi hafði samband og spurðist fyrir um það hvenær leigusali ætti að skila tryggingarfé sem hann hafði greitt við upphaf leigutíma.
Þegar leigjandi hefur skilað íbúð af sér ber leigusala að skila honum tryggingarfénu án ástæðulauss dráttar. Eftir að leigjandi hefur skilað íbúð ber leigusala að kanna ástand hennar svo fljótt sem verða má og taka afstöðu til þess hvort hann geri kröfu í tryggingarféð. Leigusali má aldrei halda tryggingarfé lengur en í tvo mánuði eftir skil íbúðar, nema hann geri skriflega kröfu til fjárins.
Skýrsluna má finna hér í heild sinni.
Innlent