Innlent

Plastmál Jóhönnu Sigurðardóttur selt á 105 þúsund krónur

Plastmálið er sannarlega glæsilegt.
Plastmálið er sannarlega glæsilegt. mynd/Virkir Morgnar
Plástmál sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, drakk úr í hljóðveri Rásar 2 í morgun var slegið á 105 þúsund krónur. Uppboðið hófst eftir að þáttastjórnendur Virkra morgna komu að dýrgripnum á glámbekk í morgun.

„Við komum að málinu í hljóðverinu," segir Andri Freyr Viðarsson, annar þáttastjórnandi Virkra morgna. „Það er oft eitthvað rusl í hljóðverinu eftir morgunvaktina, þar á meðal var þetta glæsilega plastmál. Við spurðum hvort að Jóhanna hefði í raun notað málið og svo reyndist vera."

Andri segir að plástmálið sé svo sannarlega glæsilegt. Bleikur varalitur forsætisráðherra er enn á brún þess. Þá er vatnið sjálft sveipað bleikum blæ. „Þetta er náttúrulega bara listaverk," segir Andri.

Andri ásamt samstarfskonu sinni, Guðrúnu Dís Emilsdóttur, ákváðu að setja málið á uppboð. Þá upphófst mikil barátta um glasið. Það var síðan Sjónlistamiðstöðin sem hreppti góssið eftir að hafa boðið 105 þúsund krónur í það. Ágóðinn rennur óskiptur til Umhyggju, félag til stuðnings langveikum börnum.

„Við ætlum síðan að heimsækja Sjónlistamiðstöðina á mánudaginn og sendum beint út þegar við fáum peninginn," sagði Andri.

Andri vill ólmur endurtaka leikinn og skorar á þjóðþekkta einstaklinga að senda Virkum morgnum nærbuxur sínar. „Helst skítugar," sagði Andri. „Það ætti nú að vera vinsælt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×