Innlent

Regnbogabörn komu út í tapi: „Gjald borgarinnar fyrir neðan allar hellur"

Boði Logason skrifar
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, og Stefán Karl Stefánsson á góðri stundu.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, og Stefán Karl Stefánsson á góðri stundu. Mynd úr safni
Regnbogabörn komu út í tapi eftir fjáröflun samtakanna miðborginni í gær. Sjálfsagt að greiða gjald til borgarinnar, en 100 þúsund krónur er einfaldlega fyrir neðan allar hellur, segir stofnandi samtakanna.

Það er sjálfsagt að greiða gjald til borgarinnar fyrir leigu á sölubás í miðborginni á hátíðisdögum, en 100 þúsund krónur er einfaldlega of mikið.

Fjöldasamtök áhugafólks um eineltismál, Regnbogabörn, voru með sölubás á Hinseigin-dögum í gær, þar sem boðið var upp á Candy Floss, nammi og aðrar veitingar.

Stefán Karl Stefánsson, leikari og stofnandi samtakanna, segir að samtökin hafi selt góðgæti fyrir um 130 þúsund krónur.Samtökin leigðu söluvagn fyrir tuttugu þúsund krónur og svo kostaði nammið sem selt var rúmlega þrjátíu þúsund krónur. Þegar hann gerði upp í lok dag nam tap samtakanna, eftir fjáröflunina, um 26 þúsund krónum.

Það sem vegur þyngst í því er eflaust stöðugjald sem þarf að greiða Reykjavíkurborg - 100 þúsund krónur fyrir einn dag.

„Þetta þykir mér gersamlega fyrir neðan allar hellur. Það er alveg sjálfsagt að greiða eitthvað gjald til borgarinnar fyrir aðstöðu, rafmagn og fleira. Það sem skýtur skökku í þessu er að mánaðargjald fyrir götu- og torgsölu, frá níu á morgnanna til sex á daginn, er 20 þúsund krónur á mánuði.  Fyrir þennan eina tiltekna dag er það 100 þúsund krónur. Þetta er svipað eins og ef Mál og Menning, Iða og bókabúðir í Reykjavík þyrftu að borga fjórfalt fasteignagjald yfir jólabókarflóðið - bara vegna þess að þær græða svo mikið á því," segir Stefán Karl.

Hann segir að markmiðið með sölubásnum í miðborginni í gær hafi verið að safna pening fyrir samtökin. Það hafi því verið mjög skrítin tilfinning að selja fyrir 130 þúsund krónur - en koma samt út í tapi.

 Það sem mér finnst leiðinlegt er að við komum út í þessu tapi. En það er allt í lagi ég tek það bara persónulega á mig, og greiði það tap sjálfur. Þetta verður að laga. Það er sjálfsagt að greiða gjald til borgarinnar, en 100 þúsund krónur fyrir söluglugga, sem er raunverulega ekki nema frá klukkan 13 til 17, er bara fyrir neðan allar hellur,“ segir Stefán Karl að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×