Erlent

Deila um hvort Voyager-1 hafi yfirgefið sólkerfið eða ekki

Deila er komin upp meðal stjarnfræðinga um hvort geimfarið Voyager-1 hafi í raun yfirgefið sólkerfi okkar eða ekki.

Í nýrri rannsókn byggðri á upplýsingum frá geimfarinu kemst Bill Webber prófessor við ríkisháskólann í Nýju Mexíkó að þeirri niðurstöðu að Voyager-1 hafi yfirgefið sólkerfið eða hið svokallaða heliohvolf í fyrra. Webber segir að raunar megi dagsetja nákvæmlega hvenær geimfarið yfirgaf sólkerfið eða þann 25. ágúst s.l.

Prófessorinn byggir þetta á því að mælingar Voyager-1 hafi frá þessum degi sýnt mun meiri geimgeislun en geislun frá sólinni.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA er ósammála þessu en stofnunin fjármagnaði rannsókn prófessorsins. NASA, sem stjórnar geimfarinu, segir að Voyager-1 sé enn innan marka sólkerfisins.

Hvað sem þessum deilum líður er Voyager eitt best heppnaða geimskot NASA frá upphafi. Voyager-1 var skotið á loft árið1977 og átti geimfarið að kanna ystu pláneturnar í sólkerfinu. Því verkefni lauk fyrir fjölda ára en áfram heldur geimfarið að senda upplýsingar. Það er statt í 18 milljarða kílómeta fjarlægð frá jörðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×