Erlent

Byrjaðir að fjarlægja kjarnorkueldsneyti úr verinu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sérútbúinn krani var smíðaður til að draga eldsneytisstengurnar upp úr
Sérútbúinn krani var smíðaður til að draga eldsneytisstengurnar upp úr Mynd/EPA
Japanir hófust handa í morgun við að fjarlægja kjarnorkueldsneyti úr einum kjarnaofna kjarnorkuversins í Fukushima. 

Verið eyðilagðist í náttúruhamförunum í mars árið 2011, þegar risaflóðbylgja kaffærði allt í kjölfar eins stærsta jarðskjálfta sögunnar.

Kjarnaofn 4 var ekki í notkun þegar flóðbylgjan skall á, þannig að ekki varð bræðsluslys í þeim ofni. Byggingin utan um ofninn skemmdist hins vegar og telst ekki örugg, komi annar stór jarðskjálfti.

Fjarlægja þarf svonefndar eldsneytisstengur úr ofninum, en stengurnar eru fjögurra metra löng rör sem lyft er upp með sérútbúnum krana. 

Hætta er á því að stengurnar séu skemmdar og geislavirkt efni geti því lekið út. Verkið er því áhættusamt og mun taka langan tíma, en er sagt hafa gengið slysalaust til þessa.

Stengurnar eru þúsundir talsins, geymdar saman í einingum þar sem 60 til 80 stangir eru í hverri einingu. Alls eru 1.500 slíkar einingar í ofninum, en þær verða fjarlægðar 22 saman í einu.

Gangi allt að óskum verða stengurnar settar í öruggari geymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×