Innlent

Heimdallur selur Jóhönnuklúta á landsfundi

Áslaug Arna með klútinn á landsfundinum í dag.
Áslaug Arna með klútinn á landsfundinum í dag.
„Þetta rýkur út eins og heitar lummur," segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar en félagið seldi svokallaða gleraugnaklúta á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag, sem hafa vakið mikla athygli.

„Á klútunum er forsíða Morgunblaðsins frá því 26. janúar árið 2011, daginn eftir að stjórnlagaráðskosningarnar voru ógildar. Okkur Heimdellingum fannst þessi forsíða einstaklega eftirminnilega og ákváðum að prenta hana á gleraugnaklútana," segir Áslaug Arna.

„Við reyndar byrjuðum að selja þetta í fyrra og viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Við létum framleiða um 500 stykki og ég er alveg viss um að það mun allt seljast upp á fundinum," segir hún, en Heimdellingar selja klútana á 2000 krónur og rennur ágóðinn í starf félagsins.

En hefur enginn úr Samfylkingunni keypt Jóhönnuklút af félaginu? „Nei, þeir hafa ekki sent okkur tilboð en þeir eru að sjálfsögðu velkomnir að kaupa klút af okkur þó að þetta mál sé ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim," segir Áslaug Arna að lokum.

Landfundur Sjálfstæðisflokksins var settur í dag og verður slitið á sunnudag. Hægt verður að horfa á fundinn í beinni útsendingu á Vísi alla helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×