Innlent

Grunur um myglusvepp á Vistheimili barna

Á Vistheimili barna sem er úrræði á vegum Reykjavíkurborgar eru börn í lengri eða skemmri tíma á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Þar er pláss fyrir sjö börn en stundum eru þau fleiri, sum koma beint af fæðingardeildinni en þau elstu eru um þrettán ára. Þau eiga það sammerkt að geta ekki búið hjá foreldrum sínum vegna ýmissa ástæðna svo sem vanrækslu og ofbeldis. Á neðri hæðinni fá svo foreldrar, sem þurfa mikla aðstoð við uppeldi barna sinna, að fá að dvelja tímabundið.

Nýr forstöðumaður tók fyrir stuttu við starfseminni og brást hann við kvörtunum starfsmanna um að hugsanlega gæti verið myglusveppur í húsnæðinu og kallaði til sérfræðinga. Telur hann að mikil umræða í vetur um skaðsemi myglusveppa í húsum hafi vakið upp grunsemdir hjá starfsfólkinu.

Málið er í rannsókn og er skýrslu að vænta á næstunni. Á vef fyrirtækisins sem framkvæmir skoðunina kemur fram að einkenni geta jafnvel verið afar mismunandi á milli fjölskyldumeðlima sem búa í sama húsnæði. Þá er algengt að þar sem myglusveppur er í vexti finni aðeins hluti af íbúum eða starfsmönnum til óþæginda.

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur sagði í samtali við fréttamann í dag að allt verði gert til að tryggja heilsu barna og starfsmanna vistheimilisins og brugðist verði við niðurstöðum skýrslunnar. Vonast er til þess að málið sé ekki svo alvarlegt að loka þurfi heimilinu eða raska starfseminni, slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir börnin sem þar dvelja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×