Fótbolti

Jóhann Berg fyrstur til að skora þrennu í keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Mynd/AFP
Jóhann Berg Guðmundsson endurskrifaði sögu íslenska karlalandsliðsins á Stade de Suisse i Bern í gær þegar hann skoraði þrennu í 4-4 jafntefli á móti Sviss. Hann varð þar með fyrsti íslenski landsliðsleikmaðurinn sem skorar þrjú mörk í keppnisleik.

Níu leikmenn höfðu náð að skora tvö mörk í leik í undankeppni HM eða undankeppni EM en enginn hafði náð að innsigla þrennuna. Eiður Smári Guðjohnsen hafði komist næst þrennunni á móti Litháum á Laugardalsvellinum í október 2002 í undankeppni EM.

Eiður Smári skoraði þá tvö mörk í 3-0 sigri á 61. og 73. mínútu. Hann fékk síðan gullið tækifæri í lokin þegar Ísland fékk víti þegar Eiður Smári var felldur á 88. mínútu. Eiður Smári tók spyrnuna sjálfur en skaut hátt yfir markið.

Jóhann Berg er annar leikmaðurinn sem nær því að skora tvö mörk eða fleiri í útileik því Gylfi Þór Sigurðsson sem lagði upp tvö mörk fyrir Jóhann Berg í gær, skoraði bæði mörkin í sigri á Slóveníu í mars.

Flest mörk fyrir íslenska karlalandsliðið í keppnisleik:

3 - Jóhann Berg Guðmundsson á móti Sviss 6. sept. 2013 í HM

2 - Þórður Þórðarson á móti Belgíu 5. júní 1957  í HM

2 - Ríkharður Jónsson á móti Írlandi 12. ágúst 1962 í EM

2 - Ásgeir Sigurvinsson á móti Wales 14. október 1981 í HM

2 - Pétur Pétursson á móti Tyrklandi 20. september 1989 í HM

2 - Eyjólfur Sverrisson á móti Tékklandi 1. september 2001 í HM

2 - Eiður Smári Guðjohnsen á móti Litháen 16. október 2002 í EM

2 - Eiður Smári Guðjohnsen á móti Lettlandi 13. október 2007 í EM

2 - Hallgrímur Jónasson á móti Portúgal 7. október 2011 í EM

2 - Gylfi Þór Sigurðsson á móti Slóveníu 22. mars 2013 í HM




Fleiri fréttir

Sjá meira


×