Innlent

Ekki hægt að fullyrða að fanginn hafi verið myrtur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Hólm Sigurðarson lést á Litla - Hrauni í vor.
Sigurður Hólm Sigurðarson lést á Litla - Hrauni í vor.

Ekki er hægt að fullyrða að Sigurði Hólm Sigurðssyni, fanga á Litla-Hrauni, sem lést í fangelsinu í maí í fyrra hafi verið ráðinn bani. Þetta kemur fram í krufningaskýrslu sem Vísir hefur undir höndum. Tveir menn, þeir Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson, sættu einangrunarvist fyrst eftir að Sigurður Hólm lést og hafa setið í sérstakri öryggisvist frá því í júní. Rannsókn málsins er ekki lokið en beðið er eftir skýrslu dómskvadds matsmanns, réttarmeinafræðings sem fer yfir niðurstöður krufningaskýrslunnar. Eins og fram kom á Vísi í gær hefur rannsókn málsins staðið yfir í átta mánuði.



Ekki eðlilegur dauðdagi



Í skýrslunni segir að dauðdagi Sigurðar Hólm hafi ekki verið eðlilegur. Rifa á milta hafi valdið dauðanum en rifan sé fyrst og fremst afleiðing bitlauss áverka á kviðarhol, hvorki stórsæjar né vefjafræðilegar niðurstöður bendi til innri orsaka. „Engu að síður leiddu hvorki krufning né frekari rannsóknir í ljós afdráttarlaus merki þess efnis hvort um utanaðkomandi áverka eða meiðsl af völdu byltu hafi verið að ræða," segir orðrétt í skýrslunni.



Þá segir að ekki sé hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær meiðslin urðu vegna þess að hraði blóðmissis ráðist af mjög einstaklingsbundnum þáttum. „Sennilega er um um það bil 1 til 2 klukkustundir að ræða, en á því bili kemur hvaða tími sem er til álita," segir í skýrslunni.



Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, segir að þessi skýrsla sé í veigamiklum atriðum ólík frumniðurstöðum krufningar sem hafi verið birtar fljótlega eftir andlátið. „Í fyrsta lagi að það er tímafaktorinn. Í bráðabirgðaskýrslu krufningar er miðað við að þetta hafi gerst mjög fljótt. Það er talað um mínútur, frá því að áverki kemur og þar til að bani hlýst af. Í þessari skýrslu segir réttarmeinafræðingur að það sé ekki hægt að slá þessu svona föstu," segir Hólmgeir. Þvert á móti sé tekið fram líklegast ein til tvær klukkustundir. „Seinni liðurinn er sá að í bráðabirgðaskýrslu krufningar segir að ólíklegt sé að þetta geti komið til öðruvísi en af mannavöldum. á meðan að í þessari skýrslu eru meðal annars nefnd dæmi um það að sambærilegir áverkar geti komið til við fall á sléttan flöt og hvað þá fall á rúmbrík eða stól eða annað," segir hann.



Annþór og Börkur í slæmu ástandi



Hólmgeir segist hafa borið erindi undir Pál Winkel fangelsismálastjóra og spurt hann hvað yrði um mennina nú þegar þessi krufningaskýrsla lægi fyrir. Hann segist líka hafa borið erindið upp við innanríkisráðuneytið.



Hólmgeir vill vita hvaða forsendur liggi að baki því að þeir Annþór og Börkur eru enn grunaðir í ljósi þessarar krufningaskýrslu og hvers vegna þeir séu enn í öryggisgæslu. Réttindi þeirra séu gríðarlega skert. „Til dæmis skerðing á símatímum, sem hafa reyndar verið á flakki. Það er ýmist verið að skerða símatíma og annað. Þeir hafa ekki aðstöðu til að hreyfa sig og nú eru þeir orðnir líkamlega mjög bágbornir, hreinlega af hreyfingarskorti. En þá var brugðið á það ráð að hleypa þeim einum í íþróttasalinn í einhvern hálftíma á fyrirfram ákveðnum dögum, sem hefur náttúrlega ekkert að segja. Þetta er pínulítið rými. Og þeir hafa náttúrlega ekkert samneyti við aðra fanga," segir Hólmgeir Elías.



Vekja ótta hjá öðrum föngum



Rétt er að taka fram að þeir Annþór og Börkur hlutu á dögunum mjög þunga dóma fyrir alvarleg ofbeldisbrot. Annþór fékk átta ára dóm en Börkur sjö ára dóm. Þá hefur komið fram að aðrir fangar óttast þá félaga. Til dæmis lýsti strokufanginn Matthías Máni Erlingsson því yfir að hann væri hræddur við þá. Þeir eiga báðir langar brotasögur að baki og Börkur hefur meðal annars verið dæmdur fyrir að ráðast á mann með exi. Aðspurður út í þau mál segir Hólmgeir Elías þetta:



„Það getur vel verið. Þeir fangar sem komu nafnlaust að gefa skýrslu fyrir dómi síðastliðið haust báru því nú við að þeir væru ekki mjög hræddir," segir Hólmgeir. Engu að síður hefði Hæstiréttur fallist á að þeir væru samt hræddir.



„Mín tilfinning er sú að þetta sé bara komið út í það að þarna skuli þeir vera þó svo að íslenska ríkið viti að það það sé verið að brjóta á þeim og viti að líklega fylgi eitthvað skaðabótamál í kjölfarið en það sé samt sem áður betra," segir Hólmgeir Elías að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×