Hinn frábæri miðjumaður Barcelona, Xavi, segir að lið Barcelona fagni álaginu og pressunni sem er á liðinu um þessar mundir.
Barcelona er að fara að spila við AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og svo bíður seinni leikurinn gegn Real Madrid í undanúrslitum spænska konungsbikarsins.
"Þó svo við séum ekki með þjálfarann okkar þá gengur lífið sinn vanagang. Við tökum fagnandi á móti þeirri pressu að vera spáð sigri í Meistaradeildinni. Það er mikil pressa en við viljum hafa það þannig," sagði Xavi.
Hann býst við því að leikirnir gegn AC Milan verði mjög erfiðir.
"Við þurfum að taka á því. Milan er ekki bara hvaða lið sem er. Þeir eru með sterka varnarmenn og marga hæfileikaríka leikmenn. Þetta er frábært lið sem hefur unnið keppnina sjö sinnum."

