Fótbolti

Real sló Barcelona út á Nývangi - Ronaldo með tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Barcelona vinnur ekki þrennuna í ár því liðið féll í kvöld út úr spænska bikarnum eftir 1-3 tap á heimavelli á móti erkifjendunum í Real Madrid. Real Madrid vann því 4-2 samanlagt og er komið áfram í undanúrslit keppninnar.

Cristiano Ronaldo skoraði fyrstu tvö mörk Real Madrid í leiknum en hann hefur skoraði í síðustu sex leikjum sínum á Nývangi, heimavelli Barcelona. Barcelona-liðið er í lægð þessa dagana en liðið var fyrir leikinn búið að spila 22 heimaleiki í röð án þess að tapa.

Barcelona byrjaði vel og Lionel Messi fékk gott færi eftir 90 sekúndur. Börsungar voru mun meira með boltann en Real Madrid beitti skeinuhættum skyndisóknum með góðum árangri.

Cristiano Ronaldo kom Real Madrid í 1-0 úr vítaspyrnu á 13. mínútu eftir að Gerard Pique felldi hann í teignum. Lionel Messi var nálægt því að jafna í lok fyrri hálfleiks en aukaspyrna hans fór rétt framhjá.

Ronaldo bætti við öðru marki sínu á 57. mínútu eftir frábæra skyndisókn. Lionel Messi tapaði boltanum og Ronaldo skoraði auðveldlega eftir sendingu frá Angel Di Maria.

Raphael Varane, sem jafnaði metin í fyrri leiknum, skoraði síðan þriðja mark Real Madrid á 68. mínútu þegar hann skallaði inn hornspyrnu Mesut Özil.

Jordi Alba minnkaði muninn fyrir Barcelona á 89. mínútu eftir sendingu frá Andrés Iniesta en það var hvergi nóg því liðið þurfti þrjú mörk til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×