Erlent

Stjörnukokkar í París blanda sér í hrossakjötshneykslið

Stjörnukokkar í París hafa blandað sér í hrossakjötshneykslið sem komið hefur upp í meirihluta landa innan Evrópusambandsins. Kokkarnir eru í vaxandi mæli að setja hrossakjöt í ýmsum útgáfum á matseðla sína.

Frakkar borða raunar töluvert af hrossakjöti en sú neysla hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Samt sem áður eru um 17.000 bændabýli í landinu sem m.a. ala upp hross til slátrunar. Ársframleiðslan er 18.000 tonn en stór hluti af henni er seldur til Ítalíu.

Eftir að hrossakjötshneykslið komst í hámæli fyrir skömmu síðan hefur borið æ meir á réttum úr hrossakjöti á veitingahúsum sem hafa jákvæðar umsagnir í sælkerabiblíunni Michelin. Flest bjóða upp á hrossatartar, það er hrátt hakkað kjöt með eggjarauðu og fleiru góðmeti.

Í umfjöllun á vefsíðu BBC er tekið dæmi af Le Tonton í 15. hverfi Parísar. Þar ákvað eigandinn að setja hrossakjöt aftur á matseðilinn en hann segir að tartarsteik hafi upprunalega verið búin til úr hrossakjöti allt frá tímum Mongólanna.

Af öðrum þekktum veitingahúsum í París sem bjóða upp á hrossakjöt má nefna Le Taxi Jaune, Le Verre Vole and Septime.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×