Innlent

Segir Ólafíu hafa tekið þátt í ófrægingarherferð gegn sér

Ólafía Björk Rafnsdóttir hlaut 76 prósent atkvæða til formanns VR en tilkynnt var um úrslitin í dag. Fráfarandi formaður telur að ófrægingarherferð gegn sér í aðdraganda kosninganna hafi vegið þungt.

Fjölmiðlafólki var ekki heimilað að sitja fund kjörstjórnar þegar úrslitin voru kunngerð en í gegnum glerið var auðvelt að greina hver hafði farið með sigur af hólmi. Fráfarandi formaður, Stefán Einar Stefánsson, gekk rakleiðis út af fundinum á meðan sigurreif Ólafía stóð eftir og tók við hamingjuóskum.

Ólafía hlaut 4785 atkvæði gegn 1499 atkvæðum Stefáns en kosningaþáttaka var 22 prósent samanborið við 17 prósent fyrir tveimur árum.

Stefán segir að úrslitin hafi komið honum á óvart en að skilaboðin séu skýr, félagsmenn séu óánægðir með störf hans fyrir félagið.

„Mér sýnist það á þessum tölum. Ég tel að það séu ákveðnar ástæður fyrir því en það er spurning hvort menn taki þær gildar eða ekki."

Ástæðurnar sem Stefán vísar í er ófrægingarherferð sem hann telur að hafa verið beint gegn sér undanfarnar vikur og mánuði. Mótframbjóðandi sinn hafi tekið þátt í henni ásamt öðrum.

„Já hún hefur náð í gegn, og Reynir Traustason og liðið í kring um hann hefur auðvitað staðið sig vel undanfarin tvö ár í að níða niður af mér mannorðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×