Ríkissaksóknari hefur ákært þá Baldur Kolbeinsson og Matthías Mána Erlingsson fyrir að hafa ráðist á fjóra fangaverði með ofbeldi í mars síðastliðnum.
Baldur er ákærður fyrir að hafa veist að þremur fangavörðum. Hann á að hafa slegið einn fangavörðinn ítrekað í höfuðið, rifið í hár annars fangavarðar og slegið þann þriðja í hnakkann þannig að gleraugun hans fóru af. Tveir fangaverðir hlutu áverka eftir árásina auk þess sem gleraugu tveggja varða eyðilögðust.
Matthías Máni er ákærður fyrir að hafa slegið fjórða fangavörðinn í höfuðið.
Eins og kunnugt er þá flúði Matthías Máni frá Litla Hrauni skömmu fyrir síðustu jól. Hann klifraði yfir girðingu og hélt síðan til í sumarbústöðum á Suðurlandinu. Meðal annars stal hann fjórhjóli og riffli. Þá var stjúpmóður hans komið í skjól þegar hann flúði, en hann var dæmdur fyrir tilraun til manndráps þegar hann réðst á hana. Matthías gaf sig svo sjálfur fram á aðfangadegi, um þremur mánuðum síðar á hann að hafa ráðist á fangavörðinn.
Baldur hefur meðal annars verið dæmdur fyrir þjófnað og ofbeldisbrot. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudaginn.
