Innlent

Fjórtán ára stelpa kýld á "unglingaballi" KMF

Jóhannes Stefánsson skrifar
Stelpan var kýld af ölvuðum manni á KMF um helgina.
Stelpan var kýld af ölvuðum manni á KMF um helgina. Mynd/úr einkasafni

Fjórtán ára stelpa var kýld í Reykjaneshöllinni á laugardaginn á Keflavík Music Festival með þeim afleiðingum að hún vankaðist, hlaut áverka í andliti, heilahristing og mikla tognun á hálsi þannig að hún þurfti að klæðast hálskraga. Stelpan þarf að gangast undir rannsókn hjá taugasérfræðingi til að kanna hvert eðli áverkanna er.

Stelpan var á skemmtun sem auglýst hafði verið fyrir unglinga á aldrinum 13 - 14 ára en opinn bar var á skemmtuninni og mikið um drykkju.

Til stóð að stelpan myndi fara utan í keppnisferð í fótbolta á næstu dögum en útséð er að ekkert verður af því vegna atviksins.

Allir fullir og opinn bar á unglingaskemmtun

„Stelpan lendir í því að vera kýld niður af drukknum einstakling. Mér skilst að hún hafi verið flutt með sjúkrabíl í bæinn. Þetta var ekki það sem maður var að kaupa miða á því maður ætlaði ekki að hleypa barninu sínu á útihátíð," segir móðir einnar vinkvenna stúlkunnar.

Konan segir engar auglýstar forsendur hafa staðist og að hátíðin hafi alls ekki verið við hæfi barna. „Við sáum auglýsta áfengis- og vímuefnalausa skemmtun á sér síðu sem hét 8.-10. bekkur Keflavík Music Festival. Þetta átti samkvæmt síðunni að vera til kl. 23 á laugardagskvöldinu. Við vorum nokkrar mömmur sem ákváðum að leyfa börnunum okkur að fara saman, þetta eru allt krakkar úr fótboltanum. Tónleikarnir voru svo miklu lengur en auglýst var," segir konan.

„Fyrri tvö kvöldin voru þau í tjaldi fyrir utan sem var frekar fámennt og aðallega unglingar þarna inni en svo á laugardagskvöldinu þá voru allir inni í Reykjaneshöllinni og allir fullir þarna inni og verið að drekka inni á staðnum líka. Síðan voru margir að bjóðast til að kaupa eitthvað á barnum fyrir stelpurnar. Ég veit um fleiri mæður sem eru mjög ósáttar. Við vorum ekki að kaupa miða á þessum forsendum. Ein mæðranna er algjörlega í sjokki og á erfitt með svefn út af þessu."

Konan segir aðkomuna hafa verið skelfilega þegar farið var að sækja hópinn á laugardeginum: „Það var búið að auglýsa rútuferðir [úr Keflavík til Reykjavíkur innsk. blm.] fyrir krakkana en það stóðst ekki heldur. Þess vegna fór  ein mamman að sækja krakkana og hún var algjörlega í sjokki þegar hún kom á staðinn. Það var drukkið fólk út um allt og þetta leit bara út eins og á Þjóðhátíð í Eyjum. Ég hefði aldrei sent barnið mitt þangað ef ég hefði vitað að þetta myndi vera svona.

Yfirvöld kannast ekkert við unglingaballið

„Ég er búin að tala við sýslumann og forvarnarfulltrúa og spyrja hvort þeir hafi veitt leyfi fyrir því að 14 ára krakkar væru þarna innan um fullt fólk og opinn bar og það bendir bara hver á annan. Það kannast enginn við að hafa veitt leyfi fyrir því og vissu heldur ekki af miðasölu fyrir þennan aldurshóp."

Hér sést auglýsingin fyrir viðburðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×