Innlent

Gefur pakistönskum stúlkum kjark til að læra

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Malala Yousafza ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag.
Malala Yousafza ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag.
Baráttukonan unga Malala Yousafza ávarpaði í dag allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Hún hefur barist fyrir rétti stúlkna til náms í Pakistan, en í október gerði talibani tilraun til að ráða hana af dögum með því að skjóta hana í höfuðið þegar hún gekk út úr skólarútu í Pakistan. Hún hefur dvalið í Bretlandi síðan og hóf skólagöngu í Birmingham í maí.

Malala, sem er sextán ára, hefur haldið úti stafrænni dagbók síðan hún var ellefu ára þar sem hún tjáir sig um baráttuna fyrir skólagöngu stúlkna í landi þar sem talibanar ráða ríkjum. Barátta Malölu hefur vakið verðskuldaða athygli um gjörvalla heimsbyggðina,en The Guardian birti í kvöld grein þar sem talað er um að hugrekki hennar hafi veitt öðrum pakistönskum stúlkum kjark til að sækjast eftir menntun. Nokkrar þeirra eru jafnvel byrjaðar að blogga um baráttu sína líkt og Malala.



Frá ráðstefnunni í dag, Ban Ki - moon fyrir miðju og Malala við hlið hans.
Mun fleiri stúlkur stunda nú nám í Swat-dalnum, en þar gekk Malala í skóla áður en tilræðið átti sér stað.

Afrah Qureshi. enskukennari í afskekktu og íhaldssömu héraði í Pakistan, hóf að lesa dagbók Malölu fyrir nemendur sína eftir að mál hennar vakti athygli. Qureshi hvatti svo stúlkurnar til að skrifa niður eigin hugsanir um málefnið.

„Þessar stúlkur hafa svo ótrúlega mikinn áhuga á að læra, þær eyða jafnvel frímínútunum í skólastofunni. Það er mikilvægt að Sameinuðu þjóðirnar vinni náið með skólayfirvöldum og foreldrum til að tryggja að stúlkurnar fái bestu mögulegu menntun. Þá eru þeim allir vegir færir,“ sagði Quershi í viðtali við The Guardian.

Margar þessara stúlkna eiga litla von um frekari menntun en grunnskólapróf. Sumar þeirra eru teknar úr skóla fjórtán ára gamlar , eða yngri, til að sinna skyldum sínum og ganga í hjónaband.

Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að 57 milljónir barna um allan heim fái ekki að fara í skóla, þar af fimm milljónir í Pakistan. Aðeins eru færri börn sem ganga í skóla í Nígeríu, en þar fer talan upp í tíu milljónir. Flest þeirra eru stúlkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×