Fótbolti

Santos fékk bara brot af peningunum fyrir Neymar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Þó svo að Brasilíumaðurinn Neymar hafi verið seldur til Barcelona fyrir 9,2 milljarða króna fékk félag hans, Santos, ekki nema lítinn hluta upphæðarinnar til sín.

Þetta er fullyrt í fjölmiðlum ytra í kvöld en þeir byggja það á fundargerð sem var lekið út. Af rúmum níu milljörðum fær félagið einn og hálfan milljarð.

Barcelona mun hafa greitt um 2,8 milljarða fyrir eignarhaldið á leikmanninum. Fyrrnefnd upphæð rann til Santos og afgangurinn til utanaðkomandi aðila - eignarhaldsfélaga að nafni Teisa Group og DIS. Þau áttu um 45 prósenta hlut í Neymar.

Afgangurinn, tæpir 6,5 milljarðar, renna til annarra aðila. Sá eini sem er tilgreindur í þeim hópi er faðir leikmannsins sem fékk væntanlega vænan skerf fyrir að beina syni sínum í átt til Barcelona ef marka má fréttir brasilískra fjölmiðla.

Fjölmörg önnur félög höfðu áhuga á kappanum, meðal annarra Real Madrid, Chelsea og Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×