Fótbolti

Þú ert bestur pabbi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francesco Totti.
Francesco Totti. Mynd/Nordic Photos/Getty
Francesco Totti, fyrirliði Roma, skoraði eitt mark og lagði upp tvö þegar Roma vann 3-1 sigur á Genoa í ítölsku A-deildinni um helgina. Með því að skora komst hann upp í annað sætið yfir mestu markaskorara ítölsku deildarinnar frá upphafi.

Svíinn Gunnar Nordahl skoraði 225 mörk fyrir AC Milan og Roma á árunum 1949-1958 og var búinn að sitja einn í öðru sætinu í meira en hálfa öld þegar Totti jafnaði hann um helgina.

Nordahl þurfti bara 291 leik til að skora sín 225 mörk en Francesco Totti lék í gær sinn 525. leik. Totti er búinn að spila í deildinni síðan 1992.

Totti á langt í land með því að jafna metið en Silvio Piola skoraði 274 mörk frá 1929 til 1954. „Ég hætti ef ég næ því, en ekki veðja á mig," sagði Francesco Totti um möguleikann á því að slá metið.

Eftir að Totti skoraði komu börnin hans til hans og afhentu honum treyju þar sem stóð á: „Þú ert bestur pabbi."

„Þetta var falleg og ógleymanleg stund fyrir mig," sagði Francesco Totti en hann vissi ekki af börnunum sínum á leiknum því þau voru búin að vera veik alla vikuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×