Íslenski boltinn

Saka formann knattspyrnudeildar um að taka hluta af sölu leikmanna

Úr leik FH og Vals í sumar.
Úr leik FH og Vals í sumar. Mynd/Vilhelm
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, og Lúðvík Arnarson, varaformaður sömu knattspyrnudeildar, saka kollega sinn hjá Val, Börk Edvardsson, um að taka hlut af sölu leikmanna Hlíðarendaliðsins.

FH og Valur gerðu 3-3 jafntefli í viðureign liðanna í Kaplakrika í kvöld. Davíð Þór Viðarsson fékk að líta rauða spjaldið í leikslok en FH-ingar voru ósáttir með þann viðbótartíma sem bætt var við venjulegan leiktíma. Kvartaði Heimir Guðjónsson við dómara leiksins, Vilhjálm Alvar Þórarinsson, í leikslok af þeim sökum.

Enn var hiti í mönnum þegar blaðamenn mættu undir stúkuna í Kaplakrika til þess að taka viðtöl við þjálfara og leikmenn. Hittu þeir fyrir fyrrnefnda Lúðvík, Jón Rúnar og Börk sem skiptust á skoðunum. Biðu blaðamenn eftir leikmönnum og á meðan fóru Lúðvík og Jón Rúnar mikinn.

„Hann er eini formaðurinn sem tekur hlut (e. cut) af öllum sölum, það er hann. Vitið þið þetta ekki? Eruð þið ekki fréttamenn? Hvað eruð þið að gera?“ sagði Jón Rúnar og félagi hans hjá Fimleikafélaginu hélt áfram:

„Þessi maður tekur peninga þegar leikmaður fer frá Val. Hann gerir það, komist að því og þefið það uppi. Talið við mennina sem vita það. Það segir enginn frá þessu,“ sagði Lúðvík ósáttur.

Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður á Mbl.is, náði myndbandi af atvikinu sem sjá má hér. Hann spurði hvað þeir hefðu fyrir sér í ásökunum sínum. Hvernig þeir gætu haldið slíku fram.

„Ég er ekkert að halda því fram. Við bara vitum það,“ sagði Lúðvík.

Ekki náðist í Börk við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×