Innlent

Kynjakvótar þjóna ekki hag stelpna í Gettu Betur

Boði Logason skrifar
"Við erum algjörlega sammála því að það vanti stelpur í Gettu Betur,“ segir formaður Málfundafélagsins í Verzlunarskólanum.
"Við erum algjörlega sammála því að það vanti stelpur í Gettu Betur,“ segir formaður Málfundafélagsins í Verzlunarskólanum. Mynd/365
Formaður Málfundafélags Verzlunarskóla Íslands segir að meta eigi fólk af eigin verðleikum en ekki kyni. Verzló er eini skólinn sem styður ekki tillögu Ríkisútvarpsins um að taka upp kynjakvóta í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu Betur.

Nýverið var samþykkt að taka upp kynjakvóta í spurningakeppninni. Tekin var ákvörðun um þetta á fundi stýrihóps keppninnar en í honum sitja fulltrúar fjögurra menntaskóla sem komast í undanúrslit árið áður, ásamt fulltrúum Ríkisútvarpsins.

Fyrirkomulagið, sem tekur gildi áður en keppnin hefst vorið 2015, gerir ráð fyrir að aldrei megi vera fleiri en tveir af sama kyni í liðum skólanna.

Fulltrúar MR, MH og Kvennaskólans studdu tillöguna, en Verzlunarskólinn var á móti henni.

Úlfur Þór Andrason, situr í stjórn nemendafélags Verzlunarskóla Íslands og er formaður Málfundafélagsins í skólanum.

„Við skiljum alveg að það eru rök með og á móti þessu. Við ákváðum að leggjast gegn þessu einfaldlega vegna þess að við teljum þetta ekki þjóna hag stelpna sem komast inn í liðin. Við erum ekki bara að hugsa um eigin hag, við vorum að taka inn stelpu sem liðsstjóra sem þýðir að hún verður komin inn í liðið eftir eitt ár. Nú er það þannig fyrir hana komið að hún verður þekkt sem kvótastelpan. Þetta finnst okkur ekki þjóna tilganginum,“ segir hann.

Úlfur segir að meta eigi fólk af eigin verðleikum, en ekki kyni og skynsamlegt sé að reyna aðrar leiðir fyrst til að hvetja stúlkur til að taka þátt.

„Ég veit að í MR skikka þeir alla í prófið, það væri skref sem hægt væri að taka á undan kynjakvótunum. Við erum alveg tilbúin að sættast á þetta til skamms tíma, og sjá hvernig þetta reynist. Við erum algjörlega sammála því að það vanti stelpur í Gettu Betur. Þetta er bara viðhorf sem þarf að vinna bug á innan frá í skólunum, frekar en að hamla þessu með einhverri löggjöf eða boðum,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×