Innlent

Hvað gerir Jón Gnarr?

Boði Logason skrifar
Jón Gnarr borgarstjóri ætlar að tilkynna um ákvörðun sína á Rás 2 á miðvikudaginn.
Jón Gnarr borgarstjóri ætlar að tilkynna um ákvörðun sína á Rás 2 á miðvikudaginn. Mynd/GVA
Jón Gnarr ætlar að tilkynna hvort að hann ætli að bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum í vor fyrir Besta Flokkinn í endurkomu Tvíhöfða á Rás 2 á miðvikudagsmorgun.

Alls óvíst er hvað Jón Gnarr mun gera. Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Jóns, hefur verið nefnd sem hugsanlegur arftaki Jóns sem oddviti Besta flokksins í Reykjavík.

Heiða Kristín er nú varaþingmaður Bjartrar framtíðar, stjórnarformaður flokksins og framkvæmdastjóri þingflokksins og eftir því sem Vísir kemst næst stendur ekki til að hún fari í borgarpólitíkina aftur. 

Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður sagði í þættinum Sunnudagsmorgun á RÚV í gær að engin ástæða væri fyrir Jón að hverfa á braut, enda væri Besti flokkurinn undir hans stjórn með sigurstöðu í Reykjavík.

Það er þó ekkert fast í þessu. Til dæmis benti uppistandarinn Dóri DNA í sama þætti á RÚV að Jón hafi verið gesta-uppistandari hjá Mið-Ísland hópnum nýlega.

„Ég veit ekki hvort að ég sé að kjafta einhverju en þar ávarpaði hann hópinn og sagði: Ég á hundrað og eitthvað daga eftir í starfi mínu, djöfull hlakka ég til að sjá ykkur þegar það er búið. En það hefur margt breyst síðan þá,“ sagði hann í þættinum.

Það er ljóst að borgarbúar eru ánægðir með störf Jóns Gnarr í þágu borgarinnar. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun mælist Besti flokkurinn stærstur flokka í Reykjavík og fengi 37% atkvæða, og sjö borgarfulltrúa. Fylgið hefur ekki mælst meira síðustu tólf mánuði.

Þátturinn á Rás 2 hefst klukkan 9 á miðvikudagsmorgun, en um er að ræða endurkomu Tvíhöfða til styrktar Bleiku slaufunni. Hamborgarafabrikkan bauð hæst í endurkomu útvarpsþáttarins, eða 375 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×