Handbolti

Elti kærustuna sína til Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giedrius Morkunas.
Giedrius Morkunas. Mynd/Valli
Litháinn Giedrius Morkunas hefur verið í ham í marki Hauka í Olís-deild karla í handbolta vetur og öðrum fremur séð til þess að Hafnarfjarðarliðið saknar ekki landsliðsmarkvarðarins Arons Rafns Eðvarðssonar sem fór í atvinnumennsku til Svíþjóðar.

Morkunas er í viðtali í Morgunblaðinu í morgun þar sem kemur fram að Haukarnir hafi ekki verið að elta hann þegar hann kom til liðsins fyrir tveimur árum heldur var hann að elta kærustu sína til Íslands.

Morkunas er í sambúð með Marija Gedroit sem er langmarkahæsti leikmaður kvennaliðs Hauka en Gedroit skoraði 45 mörk í 6 leikjum það sem af er í vetur.

Morkunas ætlaði að spila með Stjörnunni en fékk ekki leikheimild og var því fyrsta veturinn bara að æfa og vinna á vélaverkstæði Hjalta Einarssonar. Haukarnir fóru síðan í málið og redduðu félagsskiptum hans frá Litháen.

Haukarnir duttu í lukkupottinn því Morkunas hefur staðið sig mjög vel og verður væntanlega lykilmaður í vetur í baráttu félagsins um stóru titlana í íslenska handboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×