Fótbolti

"Ekki snerta sofandi Króata“

Kolbeinn Tumi Daðason í Zagreb skrifar
Fyrirsögn í króatísku dagblaði í morgun: "Ég hélt að þú værir herramaður úr norðri en það voru mistök.“
Fyrirsögn í króatísku dagblaði í morgun: "Ég hélt að þú værir herramaður úr norðri en það voru mistök.“ Mynd/KTD
Króatískir fjölmiðlar fjalla mikið um frétt Vísis frá því í gær um bjórdrykkju leikmanna króatíska landsliðsins eftir markalausa jafnteflið í Reykjavík á föstudaginn.

Króatíski blaðamaðurinn Ivica Medo skrifar á vefmiðillinn Gol.hr. Þar birtir hann ýmis kostuleg ummæli sem íslenskir sparkspekingar létu fjalla á samfélagsmiðlinum Twitter.

Medo vitnar í viðtal Fótbolta.net við Ingólf Einarsson, hótelstjórann á Grand Hótel, sem sagði Knattspyrnusamband Króata ekki hafa greitt reikninga fyrir bjór á meðan á dvöl þeirra stóð hér á landi. Aðeins hafi verið fjárfest í sælgæti, gosi og samlokum. Vísir stendur fullkomlega við frétt sína af bjórdrykkju leikmanna þrátt fyrir svör Ingólfs. Hægt er að greiða fyrir vörur á annan hátt en með því að skrifa þær á reikning.

Medo tekur hins vegar orð hótelstjórans sem sannindi líkt og fleiri króatískir miðlar. Því miður hafi íslenskur fjölmiðill spunnið lygasögu til að setja króatíska landsliðið úr jafnvægi. Það muni ekki takast.

Þannig hafi fregnirnar, að sögn Medo, ekki haft mikil áhrif á þjálfarann Niko Kovac sem hafi upplifað margt á glæstum ferli. Kovac, sem er nýtekinn við starfi landsliðsþjálfara, er í guðatölu í heimalandinu.

Pistlinum líkur með þeim orðum að hvort sem sagan af áfenginu sé sönn eða ekki þá eigi króatíska liðið að leggja það íslenska að velli. Vonandi hjálpi bjórdrykkjufréttirnar leikmönnum liðsins að stilla strengi sína fyrir leik kvöldsins og þeir verði eins og „hungruð ljón sem muni borða Íslendinga í kvöldmat.“

Illa hefur gengið hjá landsliðinu undanfarnar vikur, áhugi á því er lítill enda heimamenn komnir með upp í kok af spillingu í knattspyrnu í heimalandinu. Síðasta setninginn í pistli Medo er eftirfarandi:

„Íslendingar hafa greinilega ekki heyrt um hið forðkveðna í Króatíu: Ekki snerta sofandi Króata.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×